top of page
Search

Forskot í flóknu umhverfi


Sveinn Valfells
Rósa Kristinsdóttir

Óhætt er að segja að peningaþvætti hafi verið talsvert til umræðu undanfarin misseri. Þar spila ekki síst inn í stór og áberandi hneykslismál, en nærtækt er að nefna mál Danske bank frá 2018 sem kallað hefur verið „stærsta peningaþvættismál í Evrópu.” Peningaþvættið átti sér stað í gegnum útibú bankans í Eistlandi, en umfangið nam um 229 billjón Bandaríkjadölum. Stjórnendur voru ákærðir og sektir lagðar á bankann, en brotin eru að talsverðu leyti enn til rannsóknar.


Fullyrða má að varnir gegn peningaþvætti séu verulega mikilvægur þáttur í starfsemi allra fjármálafyrirtækja. Undanfarin ár hafa þannig verið gerðar talsvert auknar kröfur til þeirra og annarra fyrirtækja í tengslum við varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.


Í peningaþvættishugtakinu felst hvers konar viðtaka, meðhöndlun eða tilfæringar ávinnings sem fenginn er með afbroti. Meðal mikilvægra liða í vörnum gegn peningaþvætti er svonefnd könnun á stjórnmálalegum tengslum, en undanfarin ár hafa verið settar strangari kvaðir á aðila, allt frá bönkum og fjármálafyrirtækjum til smærri aðila eins og fasteigna- og listmunasala, til að meta hvort viðskiptavinur sé í áhættuhópi vegna slíkra tengsla.


Þeim aðilum sem falla undir gildissvið laganna er gert skylt að hafa til staðar aðferðir eða kerfi til að greina hvort viðskiptamaður þeirra teljist í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Ef svo reynist vera ber þeim svo að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við ákvæði laganna.


Brot gegn skyldum um að framkvæma hinar lögbundnu kannanir geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur og orðspor fyrirtækja. Sem dæmi um slíkar afleiðingar má nefna stjórnvaldssektir, brottvikningu stjórnar og framkvæmdastjóra eða afturköllun starfsleyfis.


Með auknu flækjustigi, vilja til hagræðingar í rekstri og ríkari kröfum til snöggrar afgreiðslu er aukin þörf á sjálfvirkum og innbyggðum leiðum til reglufylgni. Þannig er þörf á að straumlínulaga innri ferla og þar geta sjálfvirkar uppflettingar spilað stórt hlutverk, bæði til að hraða ferlum og einnig til að lágmarka hættu á mannlegum mistökum.


Með framangreint í huga spratt upp hugmyndin að tæknilausninni Nátthrafni. Lausnin byggir á íslenskum PEP-lista (e. Politically Exposed Person) sem gerir íslenskum fyrirtækjum kleift að fletta með einföldum hætti upp kennitölum viðskiptavina og komast að því hvort þeir séu í áhættuhópi.


Miðlæg íslensk tæknilausn Nátthrafns, með tíðum uppfærslum og sjálfvirknivæddri vöktun upplýsinga, stuðlar að færri röngum niðurstöðum og auknum réttleika gagna. Það auðveldar þeim aðilum sem falla undir lögin að bera kennsl á einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.


Höfuðmarkmið Nátthrafns er því að gera notendum lausnarinnar fært að uppfylla skyldur sínar á skilvirkan, hagkvæman og þægilegan hátt. Þannig geta notendur bætt fylgni sína við lög og reglur, en á sama tíma sparað sér fjölmargar vinnustundir og handtök, með tilheyrandi forskoti í flóknu umhverfi.



 

Rósa Kristinsdóttir er lögfræðingur og meðeigandi Nátthrafns.

Comments


bottom of page