Stafræna byltingin sem hófst á seinni hluta síðustu aldar hefur gjörbreytt svo til öllum þáttum mannlegs lífs út um allan heim. Sóttvarnir og samskiptafjarlægð ýta undir notkun á hvers konar stafrænni fjarvinnslu og faraldurinn sem nú gengur yfir mun einungis hraða stafrænu byltingunni.
Fjártækni er þar engin undantekning. Fjármálastofnanir sem þjóna almenningi og atvinnulífi hafa þegar innleitt netbanka og símaöpp sem minnka vægi útibúa. Peningar eru í auknum mæli aðeins til á stafrænu formi og Ísland er um margt í fararbroddi stafrænna viðskipta.
Í stórum dráttum má flokka stafrænu nýjungarnar í tvennt: innviði og íhluti.
Innviðabylting átti sér stað þegar venslabundnir gagnagrunnar ruddu sér til rúms. Þeir gerðu kleift að skipuleggja, samkeyra og greina gögn með hætti sem áður var ill- eða ómögulegt nema með mikilli fyrirhöfn. Í grunninn má segja að nútímabanki sé venslabundinn grunnur með nettengt notendaviðmót.
Íhlutabylting átti sér stað þegar farsímar tóku að styðja við netvafra og öpp. Viðskiptavinirnir nutu aðgangs í gegnum meðfærilegri og ódýrari gátt en borðtölvu. En í grunninn höfðu þeir aðgang að sömu gögnum og þjónustu og í gegnum tölvuna.
Bálkakeðjur eru ný tegund af innviðum. Þær gera mörgum aðilum mögulegt að samnýta einn gagnagrunn án þess að miðlægur aðili þurfi að votta eða geyma gögnin. Eins og fram kemur í skýrslu AGS um stafræna peninga frá júli í fyrra opna bálkakeðjur nýja möguleika á því að stunda samþætt og milliliðalaus viðskipti með stafrænar eignir byggð á opnum stöðlum (“The Rise of Digital Money”, IMF Fintech Note, July 2019). Í því samhengi minnast höfundar sérstaklega á að nota megi rafeyri til að gera upp sjálfvirk viðskipti með verðbréf á bálkakeðjum.
Þessi framsækna sýn AGS var sett fram skömmu eftir að Monerium öðlaðist fyrst fyrirtækja leyfi til útgáfu rafeyris á bálkakeðjur. Monerium var stofnað með það markmið að tengja þessa innviðatækni við hefðbundna peninga, krónur, dollara eða evrur, með öruggum og skilvirkum hætti. Ári síðar höfum við gefið út ISK, EUR, USD og GBP á bálkakeðjur og notað þessa gjaldmiðla í viðskipti yfir landamæri til að greiða fyrir vörur og fjármagna reikninga. Mörg viðskiptanna voru sjálfvirk og öll voru gerð upp á sekúndum fyrir brot af núverandi kostnaði.
Vistkerfi bálkakeðja er ungt en í örri þróun og sífellt bætast við ný veski, þjónustur og eignarflokkar. Viðskipti með rafeyri Monerium á faraldurstímum sýna hvers megnug tæknin er. Þau marka fyrstu skrefin í að færa stóran hluta af $142 þúsund milljarða hagkerfi heims yfir á nýja innviði.
Sveinn Valfells er framkvæmdastjóri og meðstofnandi Monerium.
Comments