Gengi bitcoin hefur í fyrsta skipti í sögunni farið yfir tuttugu þúsund dollara en það náði hæst um það bil $19,700 í lok árs 2017. Þegar þessi orð eru skrifuð þá situr bitcoin í $20,508 og hefur aldrei verið hærra!
En hvað gerist næst og afhverju hefur verðið á bitcoin hækkað svo mikið líkt og raun ber vitni?
Það er samspil margra ólíkra þátta sem spila rullu í þessari þróun. Hér verða reifaðir þeir þættir sem ég tel vera mikilvægastir hvað það varðar.
Stærstu bankar heims og stjórnendur vogunarsjóða skipta um skoðun á Bitcoin hver á fætur öðrum
Það er allt annað hljóð í sérfræðingum bankanna JPMorgan og Citibank sem árið 2017 töluðu um að Bitcoin væri svindl og einskis virði. Bankarnir, sem eru meðal stærstu banka heims ef tekið er mið af eignum, hafa algjörlega umturnað skoðun sinni á Bitcoin á síðastliðnum þremur árum.
Sérfræðingar hjá Citibank eru nú að spá því að bitcoin gæti mögulega náð $300,000 per bitcoin í náinni framtíð og sérfræðingar hjá JPMorgan kalla Bitcoin stafrænt gull.
Þá hafa aðilar líkt og milljarðamæringarnir Stanley Druckenmiller og Paul Tudor Jones komið í viðtöl og lýst því yfir að þeir eigi sjálfir bitcoin og að bitcoin sé góð fjárfesting.
Þetta eru aðilar sem stýra miklu fjármagni í gegnum vogunarsjóði og geta haft veigamikil áhrif á gengi bitcoin ef þeir ákveða að fjárfesta af krafti í rafmyntinni. Þá eru margir í fjármálaheiminum sem fylgja fordæmi þessara goðsagnakenndu fjárfesta.
Paypal er byrjað að bjóða Bandaríkjamönnum upp á að versla bitcoin í gegnum sín kerfi en 21. október síðastliðinn tilkynnti félagið að það myndi byrja að bjóða upp á viðskipti með bitcoin.
Á fyrstu þrjátíu dögunum hafði Paypal, að eigin sögn, keypt 70% af öllu nýju bitcoin magni sem hafði verið gefið út yfir þetta tímabil, slík var eftirspurnin!
Stórfyrirtæki fjárfesta í bitcoin í heimi peningaprentunar, verðbólgu og neikvæðra stýrivaxta
Líkt og frægt er orðið fjárfestu bæði Michael Saylor forstjóri Microstrategy og Jack Dorsey forstjóri Twitter og Square miklum fjármunum í bitcoin í nafni fyrirtækjanna sem þeir eiga og stjórna.
Þessi fjárfesting vakti mikla athygli fjölmiðla og sérfræðinga vestanhafs enda eru bæði Microstrategy og Square metin á marga milljarða bandaríkjadala og skráð á markað þarlendis.
Það er með sanni hægt að segja að Saylor og Dorsey séu brautryðjendur fyrir fleiri stórfyrirtæki að byrja að fjárfesta hluta af sínum eignum í Bitcoin.
COVID og þörfin fyrir öruggan stað til að geyma verðmæti
Margir líta á Bitcoin sem áhættuvörn (e. hedge) gegn verðbólgu.
Með öðrum orðum þá er skoðun margra að róttækar efnahagslegar aðgerðir stjórnvalda víða um heim gegn COVID-19 faraldrinum muni valda því að kaupmáttur þjóðargjaldmiðla muni veikjast vegna verðbólgu.
Sagan sýnir okkur að á krísutímum þá leitar fólk í örugga eignaflokka líkt og gull. Það virðist vera að koma á daginn að hlutverk Bitcoin sé að vera stafræn útgáfa af gulli sem er sérhannað fyrir 21. öldina.
Bitcoin gefur fólki kost á að spara í eignaflokki þar sem ekki er hægt að auka magn í umferð eftir hentugleika. Bitcoin er alvöru hard-money sem heimurinn hefur ekki séð síðan gullfóturinn var við lýði.
Bitcoin helmingunin og minnkandi nýtt framboð
Verðlaunin sem Bitcoin-námugrafarar fá fyrir að „grafa“ eftir bitcoin, helmingast á u.þ.b. fjögurra ára fresti. Bitcoin námugröftur felur í sér að staðfesta millifærslur og tryggja Bitcoin-netið en í því ferli verður til nýtt magn af bitcoin. Þetta nýja magn er framleitt með fyrirfram ákvörðuðum hætti þ.a. það verða aldrei til fleiri en 21 milljón bitcoin.
Einn bálkur, sem inniheldur samansafn af bitcoin millifærslum, er staðfestur á u.þ.b. tíu mínútna fresti. Aðilinn sem staðfestir bálkinn fær verðlaun sem nemur 6,25 bitcoin og því eru alls búin til u.þ.b. 900 ný bitcoin á sólarhring.
Síðasta Bitcoin helmingunin átti sér stað 11. maí síðastliðinn þegar bálkverðlaunin sem námugrafarar fá fyrir að staðfesta einn bálk fóru úr 12,5 bitcoin í 6,25 bitcoin.
Aðilar sem eru í Bitcoin námuvinnslu þurfa að fjármagna sinn rekstur með því að selja stóran hluta af þeim bitcoins sem þeir grafa eftir. Helmingunin hefur því þau áhrif að helmingi minna magn af bitcoin er selt af námugröfurum á skiptimörkuðum.
Þetta ferli tekur nokkra mánuði að spilast út en sagan hefur sýnt að verð leitar alltaf upp á við nokkrum mánuðum eftir að helmingun á sér stað í Bitcoin. Þetta er í raun einföld hagfræði, minna framboð veldur því að verð leitar upp á við og finnur nýtt jafnvægisverð.
Það má því orða það þannig að helmingunin virkar sem olía á Bitcoin bálið sem brennur þessa dagana!
Metvelta á kauphöllum og metnotkun á Bitcoin netinu
Gögn frá stærstu kauphöllum heims sýna að aldrei hefur verið jafn mikil velta með bitcoin og á síðustu vikum og mánuðum. Þá hafa virk Bitcoin veskisföng (e. Bitcoin address) aldrei verið fleiri og á síðastliðnum vikum.
Þetta gefur til kynna aukningu á áhuga hjá bæði almenning og fagfjárfestum. Við hjá Myntkaupum höfum svo sannarlega fundið fyrir miklum meðbyr og auknum áhuga hjá Íslendingum.
Friðhelgi einkalífs og alræðishyggja
Þegar hver einasta millifærsla er orðin stafræn og er meðhöndluð af fjármálastofnunum líkt og Visa, Mastercard, Paypal eða af bönkum þá fara viðvörunarbjöllur að klingja í hugum þeirra sem kunna að meta friðhelgi einkalífsins.
Norðurlöndin og Ísland eiga heimsmet í lítilli notkun á reiðufé. Þægindin sem stafrænar greiðsluleiðir bjóða upp á eru frábær en það kostar okkur friðhelgi einkalífsins í kjölfarið.
Kauphegðun gefur upp mjög miklar upplýsingar og sem dæmi þá vita margar fjármálastofnanir eflaust meira um þig og þínar neysluvenjur en þú veist um sjálfa/n þig!
Það er kannski í lagi á litla Íslandi þar sem allir eru vinir en í löndum eins og Kína getur þú átt í hættu á að eiga í erfiðleikum með að verða þér úti um ýmiskonar þjónustu, sem við á Íslandi tökum sem sjálfsögðum hlut, ef þú ert með „ranga“ skoðun á ákveðnum hlutum.
Að kaupa og eiga bitcoin er leið til að taka algjöra stjórn á þínum eigin fjármunum.
Ef þú ert ekki nú þegar orðin/n virkilega spennt/ur fyrir komandi árum í heimi Bitcoin og rafmynta þá er ég með annan mola sem gæti hækkað spennustigið þitt enn frekar:
Google Trends og Bitcoin
Þrátt fyrir miklar verðhækkanir síðustu misseri þá lítur út fyrir að áhugi almennings á Bitcoin sé ekki nálægt því að vera á borð við það sem hann var í ICO maníunni árið 2017, ef marka má fjölda leita á Google undanfarið.
Sú staðreynd að almenningur er ekki nálægt því að gefa Bitcoin eins mikinn gaum og árið 2017 gefur mjög góð fyrirheit fyrir næstu tólf til átján mánuðina í bitcoin-heimum.
Ég tel að ballið sé bara rétt að byrja...
Patrekur Maron Magnússon er framkvæmdastjóri og meðstofnandi Myntkaupa.
Greinin birtist upphaflega á heimasíðu Myntkaupa þann 16.12.2020.
댓글